Réttvísi ehf. Strandgata 19a, 735 Fjarðabyggð 476-1616 fax 476-1661 rettvisi@rettvisi.is
20.01.2017

Af hverju var gæsluvarðhald yfir Grænlendingunum kært til Hæstaréttar?

Í lögreglurannsókn þeirri sem öll athygli þjóðarinnar beinist að þessa dagana hafa tveir menn verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald.  Margar spurningar liggja í loftinu vegna þess:  Af hverju fór lögregla fram á fjórar vikur?  Af hverju féllst dómari bara á tvær?  Af hverju kærði lögregla þann úrskurð til Hæstaréttar?

Svarið við þeirri fyrstu er líklega tvíþætt, annars vegar að lögregla sé býsna viss um að viðkomandi séu sekir um alvarlegt afbrot og eins hitt, að tvær vikur eru knappur tími til að fá niðurstöður úr DNA-rannsóknum o.þ.h.

Annarri spurningunni má reikna með að svara beri þannig að dómari hafi talið að gögn þau sem lögregla hefur um sekt viðkomandi séu ekki eins sannfærandi og lögreglan metur þau.

Þriðja spurningin er hins vegar merkilegust.  Afar sjaldgæft er að lögregla kæri gæsluvarðhaldsúrskurði til Hæstaréttar.  Stundum er kært þegar héraðsdómur synjar beiðni um gæsluvarðhald, en líklega þarf að leita nokkuð lengi í dómasafni Hæstaréttar til að finna mál þar sem lögregla hefur kært þó héraðsdómur ákveði gæsluvarðhaldstímann styttri en farið er fram á. 

Í rauninni er ekki mikið í húfi fyrir lögreglu, því ætla verður að á tveimur vikum muni málið skýrast talsvert og að ef sterkar grunsemdir liggi þá enn á Grænlendingunum verði auðvelt að fá framlengingu gæsluvarðhaldsins.  Virðist því blasa við að lögreglu sé mjög misboðið af úrskurði héraðsdóms og þess vegna sé kært.  Ástæðan fyrir því að lögreglu er misboðið getur svo varla verið önnur en sú að hún telji sig hafa í höndum mjög sterk gögn sem réttlæti gæsluvarðhald.

 

Það verður spennandi að sjá hvað Hæstiréttur gerir, en hann úrskurðar jafnvel nú í lok dags eða strax eftir helgina.