Réttvísi ehf. Strandgata 19a, 735 Fjarðabyggð 476-1616 fax 476-1661 rettvisi@rettvisi.is
04.04.2017

Eru þingmenn hæfir til að úthluta fé til aðila sem hefur stutt þá sjálfa?

Á þingfundi í dag lýsti Gunnar Hrafn Jónsson þingmaður því að hann væri „brjálaður“ vegna þess hve litlu fé sé veitt úr ríkissjóði til félags.  Sagði hann að félagið „m.a. hafa aðstoðað mig, veit ekki hvort ég stæði hér í dag [ella]“.  Vildi hann að framlagið til félagsins yrði hækkað ca. nífalt.

 

Reglur um hæfi þingmanna eru ekki efnismiklar.  Í stjórnarskránni segir að þingmenn séu einungis bundnir af sannfæringu sinni.  Umdeilt hefur verið í fræðunum hvort og hve mikið hægt sé að skerða frelsi þingmanna með almennum lögum, þ.m.t. lagaákvæðum um vanhæfi.  Í þingskaparlögum eru ekki aðrar reglur um að þingmenn verði vanhæfir í málum sem tengjast þeim en sú þar sem segir að þingmaður megi ekki greiða atkvæði um fjárveitingu til sjálfs sín.

 

Stundum hefur komið upp umræða um að setja strangari reglur um að þingmenn skuli víkja sæti þegar þeir tengjast málefninu sem fjallað er um.  Flokkur Gunnar, Píratar, hefur ályktað um að setja skuli slíkar reglur, sbr.: https://x.piratar.is/issue/211/.  

 

Hér verður ekki sett fram nein skoðun á því hvort ástæða er til að setja slíkar reglur.

 

Hins vegar er furðulegt að þeir sem vilji setja slíkar reglur skuli sjálfir ekki sjá neitt athugavert við að þeir mæli með auknum fjárframlögum til félags sem viðkomandi virðist nánast eiga líf sitt að launa.  Einnig er athyglisvert að fjölmiðlar skuli fjalla um þetta án þess að sjá neitt athugavert við slíkan málflutning.  Ekki síst þegar þeir eru nýbúnir að velta sér upp úr hæfi Brynjars Níelssonar sem nefndarformanns til að fjalla um Búnaðarbankaskýrsluna.