Réttvísi ehf. Strandgata 19a, 735 Fjarðabyggð 476-1616 fax 476-1661 rettvisi@rettvisi.is
04.01.2018

Í fangelsi fyrir að stela sex þúsund krónum

Á RÚV-síðunni er að finna frétt með ofangreindri fyrirsögn, sjá hér:  http://www.ruv.is/frett/i-fangelsi-fyrir-ad-stela-sex-thusund-kronum   Fréttin var víst líka í fréttatímum útvarps.

Fréttin hljómaði svo: "Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir þjófnað, með því að hafa í mars í fyrra brotist inn í verslun Hjálpræðishersins, Hertex, á Akureyri og stolið þaðan velferðarsjóði trúarsamtakanna og "kaffisjóðnum" en áætlað þýfi hans úr innbrotinu var um sex þúsund krónur."

Það fyrsta sem manni dettur í hug er hvort maðurinn hafi haft lélegan verjanda.

Og svo segir áfram: "...játaði brotið skýlaust.  ..kemur fram að sakarferill ákærða hafi verið nær óslitinn frá 1990 til 2005.  Í apríl 2017 var hann dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar í Hæstarétti....Með broti sínu nú hafi ákærði ítrekað brot sín...."

Auðvitað er alltaf spurning hvenær mál er orðið of smátt til að fara með það fyrir dóm.  Þegar höfundur þessarra lína var í lagadeild var a.m.k. kennt að það væru takmörk fyrir því hve andlag þjófnaðar gæti verið smátt.  Dómstólar hafa þó ekki látið eftir sér að slá á puttana á ákæruvaldinu í þessu efni.  Það eru tvær spurningar sem ekki er síður vert að horfa til í þessu sambandi.  Önnur er sú hvort það sé rétt forgangsröðun að ákæruvaldið sé að eyða tíma sínum í slík mál meðan algengt er að ákvörðun um saksókn í alvarlegum kynferðisbrotamálum taki heilt ár eftir að þau eru fullrannsökuð.   Hin lýtur að samhenginu milli hagsmunanna og þess sem ríkið kostar til í málinu, í þessu máli þarf ríkið að leggja út kostnað sem lætur nærri að sé hundraðfalt hærri en andlag brotsins.

Varðandi gæði verjandans þá var hann að okkar mati sá besti sem völ var á.  Niðurstaðan er miðað við sakarferil og dómafordæmi vel ásættanleg og í samræmi við það sem verjandi og ákærði áttu von á, enda mun ákærði una dómi (ekki áfrýja).  Ákæruvaldið fór fram á 8 mánaða fangelsi.