Réttvísi ehf. Strandgata 19a, 735 Fjarðabyggð 476-1616 fax 476-1661 rettvisi@rettvisi.is

Stjórnlagaþingskosningarnar kærðar

 

 

Hæstiréttur Íslands,


Dómhúsinu við Arnarhól,


150 Reykjavík.

Fjarðabyggð, 8. desember 2010.

 

 

 

Efni:  Kæra vegna stjórnlagaþingskosninga þann 27. f.m.

 

Til mín hefur leitað Þorgrímur S. Þorgrímsson, kt. 280359-4409, Miðstræti 10, Neskaupstað, og falið mér að setja fram eftirfarandi kæru.

 

Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. laga um stjórnlagaþing nr. 90 frá 2010, sbr. l. nr. 120 frá 2010.  Þorgrímur er á kjörskrá í Neskaupstað og greiddi þar atkvæði á kjörfundi.

 

Umbj. minn krefst þess að kosningarnar verði úrskurðaðar ógildar á grundvelli þess að framkvæmd þeirra hafi verið aldeilis ófullnægjandi og ólögmæt.  Í því skyni skulu nefnd nokkur atriði og eru þau eftirfarandi:

 

1.     Merktir kjörseðlar.

Umbj. minn segir að kjörseðlar sem notaðir voru við atkvæðagreiðslu á kjörfundi hafi verið merktir, þ.e.a.s. númeraðir á bakhlið og auk þess með strikamerki.  Nauðsynlegt er að rétturinn kynni sér útlit kjörseðlanna að þessu leyti.

 

Ofangreindur ágalli er brot gegn skráðum og óskráðum meginreglum um að kosningar skulu vera leynilegar.  Varðandi lagarök í því efni vísast til sömu lagaraka og reifuð verða í umfjöllun um lið nr. 2 hér að neðan.

 

2.    Pappaskilrúm í stað kjörklefa.

Á flestum ef ekki öllum kjörstöðum munu ekki hafa verið notaðir hefðbundnir kjörklefar í þessum kosningum, heldur þess í stað pappaskilrúm.  Mun þetta hafa verið gert að undirlagi Dóms- og mannréttindaráðuneytisins.  Í tíufréttum ríkissjónvarpsins þann 4. nóvember sl. var frétt um þetta.  Framkvæmdin var sú að 60 sm. há pappaspjöld séu sett á þrjár hliðar borðs sem kjósandinn á síðan að sitja við.  Síðan eru settir margir þannig klefar hlið við hlið, framan og aftan við hvern annan.  Útilokað er annað en að kjósendur geti hafa kíkt á kjörseðil næsta kjósanda, t.d. þegar þeir standa upp við hliðina á öðrum sem er að fylla út seðil, eða ganga fyrir aftan hann og horfa yfir öxl hans.

Umbj. minn telur þessa framkvæmd ólögmæta og eru lagasjónarmið hans hér að neðan.

 

Í 5. gr., 26. gr., 1. mgr. 31. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um kosningar til Alþingis, forsetakosningar, kosningar um breytingar á þjóðkirkjunni og kosningar um gildi laga sem forseti hefur synjað staðfestingar.  Í öllum tilvikum er mælt fyrir um að kosningarnar séu leynilegar.  Þessi ákvæði taka þó ekki beint til stjórnlagaþingskosninga, en hér er á ferðinni alger grundvallarregla sem ber að túlka rúmt, auk þess sem telja má að þar sem stjórnlagaþingskosningarnar skulu fara eftir lögum um kosningar til Alþingis sbr. neðangreint þá eigi ákvæðið þannig beint við um stjórnlagaþingskosningar.

Í lögunum um stjórnlagaþing eru nokkur sérákvæði um framkvæmd kosninga, en síðan segir í 2. ml. 1. mgr. 11. gr.:  „Um...framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á“.

Í lögum um Alþingiskosningar nr. 24 frá 2000 er í 69. gr. eftirfarandi ákvæði:  „Í hverri kjördeild skal vera hæfilegur fjöldi kjörklefa. Kjörklefi skal þannig búinn að þar megi greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi kýs. Í hverjum kjörklefa skal vera lítið borð sem skrifa má við.

Hér er alveg skýrt að kjörklefi sé þannig að aðrir geti ekki séð hvað kjósandi gerir. 

 

Þrátt fyrir að í nefndu stjórnlagaþingslagaákvæði sé fyrirvarinn “eftir því sem við á”, þá er fráleitt að fyrirvarinn eigi við hér.  Alls staðar í kosningalöggjöfinni kemur leynt og ljóst fram sú grundvallarregla að kosningar skulu vera leynilegar, t.d. í 85. gr. sem segir að kjósandinn skuli brjóta kjörseðilinn saman inni í kjörklefanum og gæti þess að enginn geti séð hvernig hann greiðir atkvæði, og í 87. gr. um að ef kjósandi lætur sjá hvað er á seðlinum megi ekki nota seðilinn en hann geti fengið nýjan. Auk þess vísa stjórnlagaþingslögin, 2. mgr. 15. gr. beint í ákvæði XXV. kafla laganna um kosningar til Alþingis, um að refsivert sé að sýna hvernig maður kýs og refsivert sé að kíkja á hvernig annar maður kýs. 

 

3.    Kjósendur sviptir rétti til að kjósa í annarri kjördeild.

Sú regla gildir í Alþingiskosningum, að kjósandi getur afsalað sér kosningarétti í kjördeild þar sem hann er heimilisfastur og fengið að kjósa í kjördeild þar sem hann er staddur annars staðar, sbr. 2. tl. 2. mgr. 80. gr. laga um kosningar til Alþingis.  Sama ætti að gilda í þessum kosningum skv. 2. ml. 1. mgr. 11. gr. laga um stjórnlagaþing.  Í stjórnlagaþingskosningunum var landið allt eitt kjördæmi, og hefði þetta því átt að vera hægt hvar sem er á landinu.

 

Umbj. minn telur að í þessum kosningum hafi þessi réttur verið tekinn af fólki.  Fyrirmæli hafi komið frá Landskjörstjórn eða ráðuneytinu um að þetta væri ekki í boði. 

 

Umbj. minn hefur heyrt af fólki sem vísað var frá kjörstað af þessum sökum, og getur útvegað frekari upplýsingar um það, fari svo að þetta atriði upplýsist ekki á annan hátt.

 

4.    Ófullnægjandi kjörkassar.

Í umræddum kosningum voru að sögn umbj. míns notaðir e.k. pappakassar í stað hefðbundinna kjörkassa.  Skv. 2. mgr. 69. gr. laganna um kosningar til Alþingis  þurfa kjörkassar að uppfylla lágmarksskilyrði, sem umbj. minn telur að pappakassar þessir hafi ekki fullnægt.  Þar segir m.a. að kassi skuli vera læsanlegur og þannig frágenginn að ekki sé hægt að ná seðli úr honum án þess að opna hann.  Skv. 76. gr. s.l. skal kassanum læst við upphaf kjörfundar. 

Skv. 2. ml. 1. mgr. 11. gr. laga um stjórnlagaþing gilda ofangreind ákvæði einnig um kosningar til stjórnlagaþings.

 

5.    Ekki samanbrotinn kjörseðill.

Að sögn umbj. míns var honum þegar hann kaus, bannað að brjóta kjörseðilinn saman eins og hann er vanur.  Skilst honum að það hafi verið almenn regla í kosningunum að ekki mætti brjóta seðilinn saman.  Skv. 85. gr. laganna um kosningar til Alþingis skal kjósandi brjóta kjörseðil saman inni í kjörklefa og láta hann þannig ofan í kjörkassann.  Frávik frá þessu leiða  til þess að leynd kosninganna sé ekki tryggð.

 

Skv. 2. ml. 1. mgr. 11. gr. laga um stjórnlagaþing eiga þessar reglur við í stjórnlagaþingskosningum.

 

Umbj. minn telur að ofangreindir ágallar á kosningunum séu það alvarlegir að ekki verði við unað, og því beri að ógilda kosningarnar.

 

 

Virðingarfyllst,

f.h. Þorgríms S. Þorgrímssonar,

 

 

______________________________

Esther Hermannsdóttir hdl.